Íslenski boltinn

Albert gáttaður á Lárusi Orra: „Hvað meinarðu? Hvað er í gangi hérna?“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lárus Orri Sigurðsson og Albert Brynjar Ingason deila ekki alltaf sömu skoðunum á hlutunum.
Lárus Orri Sigurðsson og Albert Brynjar Ingason deila ekki alltaf sömu skoðunum á hlutunum. stöð 2 sport

Lárus Orri Sigurðsson og Albert Brynjar Ingason eru ekki alltaf sammála og voru það svo sannarlega ekki þegar þeir fjölluðu um leik Víkings og FH í Bestu deild karla í Stúkunni á mánudaginn.

Böðvar Böðvarsson braut ansi hressilega á Matthíasi Vilhjálmssyni í fyrri hálfleik og í þeim seinni fékk Nikolaj Hansen, fyrirliði Víkings, svo sitt annað gula spjald fyrir brot.

Hafliði Breiðfjörð, framkvæmdastjóri Fótbolta.net, náði skemmtilegum myndum af broti Böðvars sem voru sýndar í Stúkunni. Kjartan Atli Kjartansson bað Lárus Orra og Albert svo um álit á brotinu.

„Þetta leit ekki endilega illa út þegar maður sá þetta í vélunum en af þessum myndum að dæma lítur þetta mjög illa út,“ sagði Lárus Orri. 

Albert var á öndverðu meiði við félaga sinn í þessu máli.

„Mér finnst persónulega ekkert að þessu. Ef þú myndir fá Arnar Gunnlaugsson [þjálfara Víkings] í viðtal er ég nokkuð viss um að hann myndi segja nákvæmlega það sama,“ sagði Albert. 

„Þetta er það sem allir hafa verið að kvarta yfir því að Víkingar hafi verið að gera; fara upp að línunni og mér finnst þetta sem FH-ingar hafa verið að gera núna, í þessum leik og líka í leikjunum í fyrra, sem er greinilega það sem Heimir [Guðjónsson, þjálfari FH] er að reyna að koma inn í liðið. Við heyrðum viðtal við Bödda á .net á laugardaginn þar sem hann talaði um að þeir vilja ná þessari línu, að spila fast, gróft og vera vondir en ekki fara yfir þessa línu. Mér finnst þetta akkúrat á því þaki. Hann er fantur og vondi kallinn í þessari deild og hann spilaði bara rétt þarna.“

Strákarnir fóru svo yfir rauða spjaldið sem Hansen fékk í leiknum í Víkinni sem heimamenn unnu, 2-0.

„Er þetta annað gula spjald? Ég er ekki viss um það,“ sagði Lárus Orri.

„Lárus, hvað meinarðu?“ sagði Albert hneykslaður. „Hvað er í gangi hérna? Horfðu á Nikolaj. Hann er að segja þér að þetta sé annað gult spjald, bara hvernig hann bregst við þessu.“

„Hann er skíthræddur um að vera rekinn út af. Hann fer ansi hart í boltann en þetta er ekki annað gult spjald,“ sagði Lárus Orri.

Klippa: Stúkan - umræða um brotin í Víkinni

„Var þetta meira rautt á Bödda en þetta sem seinna gula?“ spurði Albert Lárus Orra sem játti því. „Ég sagði þér að þessi Tenerife-ferð hefði verið eitthvað erfið,“ sagði Albert og hló.

Innslagið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×